Um lukkuskot af andarunga – sýningu og vefverslun

Undanfarnar tvær vikur höfum við verið önnum kafin við að undirbúa verk sem fara á sýningu í Gallerí Fold í Reykjavík. Sömuleiðis réðumst við í það stórvirki að stofna vefverslunina www.ggart.is. Þar söfnum við saman þeim verkum sem við seljum í ákveðnum stærðum á veggi og eru í takmörkuðu upplagi.

Í þessu myndbandi sem er á ensku eins og öll okkar myndbönd fram að þessu gefum við smá innsýn í söguna bakvið myndina Andarunginn og sýnum nokkur verk sem verða fáanleg í Gallerí Fold á næstunni.

Sagan bakvið skotið

Árið er 2011. Þetta augnablik gleymist aldrei. Við vorum á degi þrjú í felutjaldi og lítil uppskera í myndum. Tjaldið er lítið, ekki nema 142 cm þar sem það er hæst í toppinn og þegar þarna er komið er setan í tjaldinu orðin 11 tímar. Setið var á lélegum útilegukollum.

Verkir í baki og rassi gerðu það að verkum að ég varð að reyna að rétta úr mér eins og hægt var í þessu litla tjaldi. Gyða var á vaktinni. Þögnin var alger. Þúfutittlingur söng í fjarska og ómaði eins og í tónleikasal.

Allt í einu hvíslar Gyða – „Hann er að koma!“

Á sekúndubroti næ ég að setjast á kollinn og sé um leið í gegnum myndavélina haförninn þjóta in til lendingar, fylgja honum og fókusa. Allt tók þetta innan við þrjár sekúndur en í minningunni virðist það eilífð.

Þetta var fyrsti og eini ramminn sem náðist af honum áður en hann lenti.

Þegar ég skoðaði myndina aftan á myndavélinni vöknuðu allskonar tilfinningar. Ég hafði aldrei séð svona mynd… og andarunginn! Meiri gat stærðarmunurinn ekki orðið.

Eftir 16 klukkutíma setu opnuðum við tjaldið og réttum úr okkur. Við vorum sátt.