Ljósmyndasýning: Tímalaus augnablik

Gallerí Fold fjallar um ljósmyndasýninguna okkar sem við nefnum „Tímalaus augnablik“. Opnun sýningarinnar var laugardaginn 5. nóvember og við erum afar þakklát fyrir hlýjar og góðar móttökur þeirra sem komu á opnunina. Mögulega sláum við nýjan tón á sýningunni. Þegar upp var lagt var ekki ætlunin að stór hluti yrði svarthvít náttúruljósmyndun og afstrakt. Svona endaði þetta og við erum sátt með útkomuna.

Fjölmargir heiðruðu okkur með nærveru sinni á opnun sýningarinnar og það var sérlega ánægjulegt að skrafa og spjalla við gesti sem litu við í Gallerí Fold. Þeir sem misstu af opnuninni geta litið við í Gallerí Fold til 19. nóvember.

Umfjöllun Gallerí Foldar

“Tímalaus augnablik” einkasýning hjónanna Einars Guðmanns og Gyðu Henningsdóttur verður opin í Gallerí Fold til 19. nóvember 2022. Þar sýna þau og listrænar náttúruljósmyndir.

Í eðli sínu festa ljósmyndir ákveðið augnablik í tíma og rúmi. Á sýningunni Tímalaus augnablik í Gallerí Fold leitast listamennirnir við að fjarlægja augnablikið, skapa rými fyrir ímyndunaraflið og um leið ögra sinni eigin hugmyndafræði um náttúruljósmyndun.

“Við förum frjálslega með abstrakt form. Bætum við eða fjarlægjum liti í tilraun til að skapa tímaleysi. Tökum einnig skref í átt að svarthvítri náttúruljósmyndun.

Í myndvinnslu minnum við okkur á að ekkert er bannað. Ímyndunaraflið getur málað út fyrir strigann. Tilfinningin fyrir myndinni fær að ráða. Ímyndunaraflið fyllir upp í eyðurnar og skapar nýja mynd á hverjum degi.”

Hjónin Einar Guðmann og Gyða Henningsdóttir búa á Akureyri. Einar starfar við ljósmyndun og ritstörf. Hann starfaði áður hjá Umhverfisstofnun þar til hann sneri sér alfarið að ljósmyndun, ritstörfum og sjónrænum listum. Gyða ólst upp í Grímsey en hún tók að sinna ljósmyndun og sjónrænum listum eftir að hafa sinnt stjórnunarstörfum í fjölda ára í fiskvinnslufyrirtæki og sem rekstrar- og verslunarstjóri í tískuverslun. Frá upphafi ferils síns sem ljósmyndari hefur Einar lagt áherslu á náttúruna í sínum fjölbreyttu myndum – landslag, fugla- og dýralíf. Gyða leggur einnig áherslu á landslag, fugla- og dýralíf í sinni ljósmyndun og grafík. Saman hafa þau gefið út bækurnar Iceland – wild at heart, Photographing Iceland – A Photo Guide to 100 locations og Grímsey – The Arctic Wildlife Wonder.

Þau hafa sýnt víða á Íslandi, en einnig í Austurríki, Kína og Suður Kóreu. Þetta er önnur sýning þeirra í Gallerí Fold.