Fljótandi fuglaljósmyndun og himbrimar í dramadansi

Það er stórskemmtilegt að nota fljótandi felubyrgi í fuglaljósmyndun þó oft sé hægt að ná svipuðu sjónarhorni með því að liggja við vatnsbakka. Myndböndin sem við höfum verið að gera undanfarið eru fyrst og fremst eitthvað sem við höfum gaman af að gera. Það er ákveðin ögrun að læra að segja sögu í gegnum video. Endalaust eitthvað að læra og nýjar græjur aðnota. Hljóðblöndun, tónlist, klippingar – allt er þetta ný hlið á ljósmyndun sem gaman er að snerta. Í þessu myndbandi förum við á flot á einum heitasta degi síðasta sumars. Við náðum nokkrum frambærilegum myndum þennan dag en hápunkturinn var að vakna daginn eftir við háværan söng sjö himbrima og hins sjaldséða glitbrúsa. Það er ekki í frásögur færandi að rekast á himbrima, jú, kannski sjö saman, en að sjá líklega eina giltbrúsann sem sést hefur á Íslandi er einstakt. Þeir settu þar að auki á svið mikinn dramadans og látalæti með tilheyrandi söng.