Það var byrjað að renna í heita pottinn hjá vinum okkar í Kópavogi eftir dásamlega kvöldmáltíð þegar mamma Gyðu hringdi. Gosið var byrjað. Við vorum fyrir röð tilviljana stödd í Reykjavík en vorum fyrir löngu búin að undirbúa okkur fyrir ljósmyndaferð að eldgosinu. Allt var klárt í húsbílnum og við rukum af stað.
Reykjanesbrautin var rauðlituð af öllum afturljósunum á bílunum á undan okkur. Skömmu áður en komið var að álverinu kemur lögreglubíll á blikkandi ljósum og neglir niður fyrir framan húsbílinn. Það vantaði einungis tvo metra í að við hefðum straujað afturendann á lögreglubílnum.
Gat verið að við yrðum þau fyrstu sem yrðu stoppuð.
Skömmu síðar fengum við að halda áfram og stuttu áður en komið var að Vogum var fyrsta myndin tekin við vegkantinn. Rauður himininn lofaði tilkomumiklu gosi.
Við gistum á tjaldstæðinu í Grindavík. Þar var fyrir einn annar bíll. Við plönuðum að ganga í birtu eftir skoðun á vettvangi.
Eftir gott morgunkaffi héldum við að Suðurstrandavegi. Þar voru nokkrir bílar í vegkanti vestan við vegatálma hjálparsveitarmanna.
Við lögðum húsbílnum á afleggjara með tveimur öðrum bílum. Ofurjeppum af því kalíberi sem einungis hjálparsveitir búa yfir. Eftir spjall við hjálparsveitarmann sem gerði sitt besta til að hræða okkur frá því að fara með því að segja okkur frá eiturgasi gengum við af stað. Það var sunnanátt og hafandi verið í námunda við Holuhraun á sínum tíma vissum við að svo lengi sem vindurinn væri í bakið væri takmörkuð hætta af gosinu.
Við gengum af stað og eftir stutta göngu mætum við erlendum ferðamanni sem kom úr austurátt en við stefndum á Nátthaga. Þarna var kominn þreytulegur slökkviliðsmaður úr ammeríkunni sem sagðist vanur terrorisma og eitruðum gastegundum en vissi lítið um gönguferðir. Hann hafði gengið í á þriðja tíma en ekkert séð.
Það var hrikalegt að sjá glytta í gosið. Eftir göngu á þriðja klukkutíma sást hvítur reykur í fjarska. Við flýttum okkur ósjálfrátt yfir hrjóstrugt landslagið eins og fætur drógu. Fátt fær hjartað til að slá hraðar en eldgos. Jú, mögulega 15 kíló af myndavéladóti og farangri sem gerði gönguna erfiðari. Það var því magnað að leggja draslið frá sér og geta byrjað að mynda.
Jarðfræðingar höfðu sagt gosið lítið og ræfilslegt. Það var fjarri sanni. Stærðin segir ekki allt. Þetta var mun fallegra en Holuhraunsgosið og það sem gerir það sérstakt er að þegar loksins er komið á staðinn er hægt að dunda við myndatökur frá ýmsum sjónarhornum. Hraunið rann í tveimur taumum niður í fallega afmarkaðan Geldingadalinn – allt um kring mosavaxnar brekkur sem bjóða upp á fallegt útsýni.
Þetta var ekkert annað en veisla fyrir ljósmyndara og um leið stórkostleg upplifun. Þarna voru fyrir nokkrir tugir manna, margir með myndavélar en flestir með síma.
Gleðin leyndi sér ekki í andlitum þeirra sem gengu að hrauninu. Þegar nær var komið var hitinn þvílíkur að hrollurinn sem hafði hótað að kæla okkur hvarf eins og dögg fyrir sólu. Á nokkrum mínútum var allur fatnaður orðinn þurr.
Af myndum mætti ætla að fólk væri að fara sér að voða með því að fara of nálægt. Aðdráttarlinsur skekkja hinsvegar fjarlægðardýptina og fjarlægðin í hraunið virðist minni en hún er.
Strekkings sunnanvindur sá til þess að reykurinn af hrauninu skapaði litla sem enga hættu. Vafalítið er mjög varasamt að fara nálægt svona hrauni í logni þar sem hættulegustu gastegundirnar safnast saman í lægðum í landslaginu.
Eftir að við komum heim hefur vitanlega mikið verið fjallað um göngufólkið sem leggur leið sína að gosinu. Það virðist hafa komið yfirvöldum á óvart að fólk skuli leggja svona langa göngu á sig. Gangan er löng og erfið á köflum og er vissulega einungis fyrir vant göngufólk.
Lágmarkið er að fara vel klæddur og gera ráð fyrir miklum kulda og rigningu. Það er ekkert vatn á svæðinu og því nauðsynlegt að hafa með sér vatn og vistir. Það er sömuleiðis auðvelt að gleyma sér þegar á staðinn er komið og erfitt að yfirgefa staðinn. Fallegasta birtan til ljósmyndunar er í ljósaskiptunum en hættan er sú að ef staldrað er lengi við þurfi að ganga til baka í myrkri. Höfuðljós með auka rafhlöðum er því algerlega nauðsynlegt.
Þegar þetta er ritað eru Almannavarnir að útbúa stikaða gönguleið að gosinu. Væntanlega má finna víða upplýsingar um gönguleiðina innan skamms.
Við erum að dæla inn fleiri myndum inn á www.gudmann.is og www.gyda.is en sömuleiðis verður fljótlega birt video á YouTube rásinni okkar – www.youtube.com/PhotographingIceland