Við vorum að ganga um borð í ferjuna í Grímsey á leið í land þegar fréttir bárust um að eldgos væri hafið við fjallið Litla-Hrút á Reykjanesskaga.
Við gengum af stað frá bílastæði við Suðurstrandaveg um klukkan 10 um kvöldið. Allir voru að fara heim og því mættum við fjöldanum öllum af fólki, gangandi og hjólandi.
Veðrið var stillt og notalegt og lengst af var gengið eftir jeppaslóða. Eftir um 8 km göngu sást gosstrókurinn í fjarska og að viðbættum einum og hálfum kílómetra vorum við komin eins nálægt og skynsamlegt þótti. Þarna erum við þreytt en ánægð, búin að ganga nánast fram og til baka um 21 km í heildina.
Við tókum með okkur gasgrímur og á um kílómetra kafla sáum við ástæðu til að setja þær upp.
Fyrst þegar við komum að gosinu var birtan frekar hörð, enda myrkrið tekið yfir. Smátt og smátt tók birtan að aukast. Bláir litir í birtunni viku fyrir heitari og gulari litum eftir því sem sólarupprásin nálgaðist.
Þegar klukkan fór að nálgast fjögur var birtan upp á sitt besta. Við skiptumst á að fljúga bæði Mini Pro og Mavic 3 drónanum. Það kom sér vel að hafa reynslu af að fljúga í fyrri eldgosum á Reykjanesskaganum. Stressið við að átta sig á takmörkun drónana var minna – eða kannski vorum við orðin kærulausari.
Sem betur fer voru engar flugvélar á svæðinu. Það er mikill kostur að vera laus við flugvélar og þyrlur. Hávaðamengunin og lætin í þeim er gríðaleg yfir miðjan daginn og reynslan sýnir að það þarf að gæta þess vandlega hvert flogið er á drónanum, ekki síst þar sem í fyrri gosum hafa flugvélar greinilega flogið neðar en leyfilegt er. Við gátum því flogið frekar áhyggjulaus þar sem flugumferð var engin.
Eftir því sem sólin hækkaði varð samspil birtunnar og lita stórfenglegra og meira freistandi að lækka flugið. Þá fór að hitna vel undir drónanum. Þarna má sjá fólk inni í reyknum frá mosabrunanum.
Það var ákveðin opinberun að sjá sólina allt í einu á toppi fjallsins Keilis og undir kraumaði hraunið í svipuðum lit. Var hægt að biðja um meira?
Mavic 3 dróninn hitnaði vel í síðustu flugferðinni. LED ljósaperur neðan á honum byrjuðu að bráðna. Linsurnar virðast hafa sloppið og festingar í kringum skynjarana byrjuðu að krumpast, en allt virkar samt ennþá.
Reykurinn frá eldgosinu dempaði sólina og virkaði sem filter á köflum. Mosabruninn rammaði inn gosið og bjó til andstæður í þessu mikla litaspili.
Fjöldi fólks var á svæðinu. Líklega mun færri en fyrr um daginn þar sem fólki fór hratt fækkandi. Það var dramatískt að horfa á fólk blandast við landslagið í þessu mikla sjónaspili. Ef vel er að gáð má sjá fólk inni í mosareyknum.
Mögulega áttum við þarna einstaka nótt við eldgosið. Skömmu síðar sá lögreglustjórinn á Suðurnesjum ástæðu til að banna aðgang að eldgosinu eftir klukkan 18:00 alla daga.
Komnar eru fleiri myndir í myndasöfnin okkar á gyda.is og gudmann.is
Við gáfum út stutt video um þessa ferð okkar á YouTube rásinni okkar sem hægt er að sjá hér.