Dagarnir eru langir þegar sólin býður upp á dáleiðandi birtu og endalaust myndefni.
Sumarsólstöður í Grímsey eru sérstakur tími. Sólin er þá hátt á lofti og birtan og litadýrðin málar allt ef svo heppilega vill til að sjái til sólar. Myndirnar sem hér fylgja eru allar teknar 24. júní 2023. Þegar náttúran bíður upp á svona aðstæður er erfitt að fara að sofa.
Gróður og gulur mosi á grjótinu myndar litríkar andstæður þegar sólin tekur aftur að hækka á lofti.
Þúfurnar fyrir ofan Básavíkina grípa sólarljósið og mynda skemmtilega skugga. Lundarnir sitja við holurnar fá besta útsýnið yfir litadýrðina. Fóturinn svokallaði bendir til norðurs í átt til sólar. Sólar sem ekki sest þann daginn.
Liggjandi á brún Básavíkur blasa lundarnir við eins og upplýstar ljósaperur í sólsetrinu. Fyrir ekki svo löngu síðan hefði verið erfitt að ná svona mynd. Myndin er tekin handhelt á 1/20 í hraða, f10 í ljósopi og samt sem áður á 64 iso. Fram að tilkomu hristivarnar í myndavélum var erfitt að ná svona senu án þess að setja myndavélina á þrífót. Linsan er á 14 millimetrum sem þýðir að lundarnir eru mun nær en virðist.
Lundi spókar sig með gras fyrir holuna sína. Í fjaska glampar sólin á sjóinn.
Álkur skapa skuggamynd.
Grímsey, 24 júní. Ekki alveg orðin græn, en iðandi af lífi. Þarna á þessar litlu eyju eru mögulega hátt í tvær milljónir fugla. Mannfólkið er mun færra.
Eftir aðhafa setið á kletti að dunda við að mynda hóp af langvíum með langri linsu leit ég við. Aftan við mig sátu lundi og langvía hin rólegustu og spjölluðu saman.
Langvíur og stuttnefjur eru athyglisverðar fyrirsætur. Liturinn á þeim breytist eftir því hvernig birtan fellur á fiðrið. Eina stundina virðast þær kolsvartar en þegar birtan breytist verða þær brúnleitar.
Skyldleiki langvíunnar og keisaramörgæsarinnar
Langvían minnir um margt á keisaramörgæs, enda eru þær skyldar. Fyrir um 65 milljónum ára þróuðust keisaramörgæsir á þann hátt að þær hættu að geta flogið. Þróunarsagan fórnaði fluggetunni fyrir betri sundfærni. Á sundi minnir langvían um margt á mörgæsir. Langvíur nota mun minni orku til að synda en aðrar fuglategundir og syndir gríðarlega hratt – en á móti eyðir hún mun mjög mikilli orku á flugi.
Sundhæfileikinn hefur á einhverjum tímapunkti í þróunarsögunni verið mikilvægari en flughæfileikinn til að afla matar. Þannig aðskildust þessar tvær tegundir í fyrndinni.
Lundapar myndar skuggamynd í sólinni – og við gátum farið að sofa.