Sjónræn stefna í fuglaljósmyndun

Það eru engar reglur í ljósmyndun sem ekki má brjóta. Stefna í myndum er ein þeirra. Flestar myndir hafa einhverja stefnu. Mynd af manni sem horfir til hægri, stefnir til hægri.

Á sínum tíma þegar ég var að læra að hanna umbrot fyrir tímarit var mikil áhersla lögð á stefnu í myndum sem fylgdu texta eða grafík. Myndir áttu að stefna þangað sem þú vildir fara með athygli lesandans.

Flestar myndir stefna eitthvert og hægt er að stjórna athygli áhorfandans með stefnu í myndum. Stundum er ætlunin að skapa jafnvægi í myndum til þess að auga áhorfandans haldist við myndina. Þetta er í það minnsta mín upplifun.

Langvíur eru ýkt dæmi um viðfangsefni sem hefur sterka stefnu. Hausinn á langvíum er eins og ör sem bendir þangað sem hún horfir.

Þrjár langvíur sem horfa allar í sömu áttina geta farið með athygli áhorfandans út úr myndinni.

Þrjár langvíur þar sem tvær horfa til vinstri og ein til hægri getur skapað jafnvægi sem heldur auganu betur við myndina.

Langvíur sem horfa í sitthvora áttina skapa ákveðið jafnvægi. Sömuleiðis þegar þær horfa beint fram.

Tvær langvíur og tveir lundar sem horfa í sitthvora áttina mynda ákveðið jafnvægi.

Þessar vangaveltur mínar um jafnvægi og stefnu í myndum er vel þekkt atriði í allri hönnun. Stefna í myndum, sérstaklega fugla- og dýramyndum ræður miklu um myndval þegar ég er að reyna að ákveða hvaða myndir henta í verkefni eða til birtingar í myndasafninu.

Það getur verið óttalegt bras að mynda langvíur. Í fyrsta lagi halda þær sig yfirleitt fyrir miðjum björgum eða í skriðum þar sem erfitt er að komast að þeim.

Með smá heppni á góðum stað er hægt að mynda langvíur með hreinan bakgrunn og forgrunn. Þegar ég er að mynda þessa fugla reyni ég að einfalda myndina eins og hægt er. Allt sem flækir myndir í forgrunni eða bakgrunni stelur athygli frá myndefninu. Stundum getur umhverfið leikið hlutverk, en stundum er ég að reyna að ná fram hegðun og þá þykir mér betra að einfalda myndina ef það er í boði.

Langvíur sitjandi á syllu hreyfa höfuðið tvist og bast í allar áttir og eru endalaust að breyta um stellingar. Það er því skemmtileg áskorun að ná samræmdum myndum sem bjóða upp á jafnvægi í myndum.

Þessi magnaði fugl er ótrúlega líkur mörgæsum. Skyldleikinn þar á milli er hinsvegar enginn. Langvían er skyld lundum og álkum.

Langvían virðist svört og hvít á litinn í skýjuðu veðri og í skugga. Þegar sólin skýn á hana sést að það er ljósbrúnn tónn í fiðrinu.