Reynslan segir mér að skerpa í náttúrumyndum er fallvalt fyrirbæri. Það er auðvelt að gera mistök sem klúðra skerpu. Að því gefnu að stillingar á myndavélinni séu í samræmi við aðstæður eru nokkur atriði sem geta klúðrað myndum þrátt fyrir „réttar“ stillingar.

Mín reynsla er að gæðamunur á linsum er vissulega til staðar en það skiptir miklu máli hvernig myndir eru teknar.

Af og til yfir vetrarmánuðina flatmaga selir á ís sem myndast á ósasvæði Eyjafjarðarár.

Þegar ég var að fara yfir myndir sem teknar voru af hringanóra og landselum á góðum degi komu upp í hugann þessar vangaveltur um skerpuna. Myndirnar reyndust flestar ágætar en sumar höfðu ekki skilað þeirri skerpu sem var í boði með réttri aðferð.

Það er ekki ætlunin hér að fara yfir alla áhrifavalda á skerpu. Finna má fjölmargar greinar um slíkt á internetinu. Hugmyndin er að fara ögn yfir það sem ég hef í huga þegar myndað er við ákveðnar aðstæður til að passa upp á skerpuna.  Atriði sem fá minni umfjöllun en stillingar myndavéla og val á linsum.

Munurinn á skerpu í dýrum linsum og hóflega dýrum linsum er hverfandi í samanburði við ákveðin framkvæmdaratriði sem geta klúðrað skerpu.

Lokarahraði og ljósop og notkun þrífóts skipta vissulega miklu máli en það eru aðrir þættir sem ég hef í huga.

Nú geta selir slakað á við Eyjafjarðará. Þeir geta dottað þar áhyggjulitlir þar sem selveiðar hafa að mestu verið bannaðar á Íslandi. Selveiðar hafa nánast lagst af eftir bann sem sett var á 2019. Fram að því voru selir skotnir við árósa þar sem ástæða þótti til að vernda hagsmuni stangveiðimanna.

Í dag getur Fiskistofa veitt takmörkuð leyfi til selveiða þar sem hefð er til nytja. Selir sem heimsækja ósasvæði laxveiðiáa eru ekki nýttir og því er líklegt að öll slík veiði heyri sögunni til.

Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar á Nikon Z7ii og Nikon Z 400mm f4.5 linsu með 1.4X og 2X brennivíddarlengi (teleconverter).

Nokkrar duldar ástæður lítillar skerpu í fugla- og dýraljósmyndun

  1. Ef mynd er tekin nálægt jörðu aukast áhrif uppgufunar frá jörðinni. Ef myndað er í liggjandi stöðu við vatn, snjó eða frosna jörð er líklegt að uppgufun hafi mikil áhrif á skerpuna. Hægt er að sporna við þessu vandamáli með því að taka myndina frá hærra sjónarhorni miðað við viðfangsefnið. Gallinn er sá að oftast þykir best að taka mynd í augnhæð fugla og dýra. Vindur sem feykir rakanum í burtu getur dregið úr vandamálinu og sömuleiðis kuldi. Þar af leiðandi er gott að mynda snemma dags. Eftir því sem lofthiti eykst verða myndir loðnari vegna meiri uppgufunar á milli þín og fyrirsætunnar.
  2. Ef mynd er tekin út um bílglugga og það er kalt úti er hætt við að hitamistur frá bílnum skemmi skerpuna. Það er heitara inni í bílnum en úti. Þetta er hægt að leysa að mestu með því að láta linsuna ná eins langt út um gluggann og boðleg er án þess að fæla viðfangsefnið.
  3. Linsuhúdd á langri linsu hefur merkilega mikil áhrif á skerpu. Það getur gerst vegna mismunar á hitastigi linsunnar og umhverfisins og heitt loft myndast inni í húddinu. Með því að taka húddið af eykst skerpan. Ef linsan og myndavélin hafa náð sama hita- og rakastigi og umhverfið verður þetta síður vandamál. Þetta er ein ástæða þess að myndir verða loðnar þegar myndað er út um glugga í bíl þegar kalt er úti.
  4. Þegar myndað er við dimm skilyrði og reynt er að hægja á lokarahraðanum til að þurfa ekki að breyta ljósopinu eða hækka ljósnæmnina (iso) skiptir fingratæknin máli. Þegar ýtt er á tökuhnappinn skiptir mýkt og næmni máli á sambærilegan hátt og nákvæmni í gikkátaki skiptir máli í skotfimi. Með því að gæta þess að rykkja ekki í myndavélina og draga þannig úr hreyfingu er hægt að komast upp með hægan lokarahraða án þess að það komi niður á skerpu.

Eflaust má telja upp fleiri atriði sem hafa áhrif á skerpu. Horfandi framhjá augljósum atriðum á borð við stillingar myndavélarinnar og það að læra á hana, þá eru þetta atriði sem geta komið aftan að manni og eyðilagt annars ágætar myndir þrátt fyrir góðar græjur