Dapurleg örlög kríuunga

Krían drap ungan að lokum og miðað við harða framgöngu hennar var það greinilega ætlunin. Hvað það er sem veldur þessari hegðun er ekki gott að segja.

Það getur tekið á að fylgjast með fuglalífinu þegar hinn kaldi og grimmi raunveruleiki opinberar sig í hegðun þeirra. Við Gyða erum komin á suðurlandið, nánar tiltekið Öræfin innan um alla ferðamennina sem er veruleg breyting frá fámenninu fyrir austan. Í gær vorum við að fylgjast með skúmum og kríum, með áherslu á að fylgjast með skúmunum veiða kríuunga. Skúmurinn er magnaður fugl. Stór og sterklegur fugl sem krían á erfitt með að verjast. Hann er áberandi dæmi um það hvernig hinir sterku þrífast á hinum veikari. Þetta á ekki bara líka við um fuglana heldur einnig okkur mennina.

Kríurnar gátu lítið gert annað en að trufla skúmana þegar þeir þeir sóttu unga í varpið. Þegar þeirra varð vart ýttu sumar kríurnar ungunum sínum í felur áður en þær réðust gegn þessu ofurefli.

Við fylgdumst með skúmunum sækja sér stálpaða unga inn í kríuvarpið með tilheyrandi látum í kríuunum og á söndunum mátti fylgjast með stóru skúmunum slíta þá í sundur sín á milli og kyngja í heilu lagi.

Athyglisverðara þótti okkur að fylgjast með kríu drepa lítinn unga. Ítrekað settist hún hjá unganum, goggaði fast í hann og gerði sitt besta til að murka lífiði úr honum. Þegar unginn sem orðinn var máttlaus, liggjandi á bakinu lendi í einu kastinu frá kríunni nálægt öðrum mun stærri og stálpaðri unga tók hann sömuleiðis þátt í atlögunni. Þetta háttarlag kríunnar vekur upp spurningar um ástæður þessarar hegðunar. Allt í kringum kríuna voru aðrar kríur uppteknar af að mata unga sína sem allir virtust dafna vel, enda nóg af æti. Líklega geta svörin aldrei orðið annað en getgátur, en svona birtist fuglaheimurinn stundum með kuldalegum hætti eins og sjá má á myndunum. Grimmd tekur á sig margar myndir.