Iceland – Wild at heart

Undanfarnar vikur hafa verið viðburðaríkar og skemmtilegar á litla heimilinu okkar. Fyrir utan að taka upp á því að gifta okkur eftir nærri 12 ára sambúð með tilheyrandi umstangi kom líka út bók eftir okkur sem heitir Iceland – wild at heart. Í bókinni er lögð áhersla á landslag en einnig gefin innsýn í íslenskt dýralíf og náttúru. Það er búið að vera mjög áhugavert að smíða þessa bók sem er einskonar sýn okkar á landið okkar Ísland, bæði í myndum og texta. Okkar upplifun á Íslandi. Í textanum var leitast við að grafa upp áhugaverðar staðreyndir um myndefnið sem gefur lesandanum vonandi dýpri innsýn í myndefnið og Ísland en mynd ein og sér getur gert.

Bókin er þegar þetta er skrifað búin að vera fáanleg í nokkra daga í helstu bókaverslunum og viðtökur hafa verið góðar. Hún er gefin út í tveimur stærðum, stór og lítil. Litla bókin fer vel í vasa eða tösku og hentar því vonandi ferðalöngum vel.

Meðfylgjandi er video sem við tókum saman sem einskonar innslag um bókina þar sem við tökum oft stutt myndskeið um leið og við tökum ljósmyndir.

Framundan eru myndatökur víða um land á komandi vikum. Landslagsmyndir og dýralíf verða væntanlega helsta viðfangsefnið en hver veit nema eitthvað af reynslusögum eigi eftir að rata hér inn þegar fram líða stundir.